Skömm

Skömm er tilfinning sem brotaþolar kynferðisofbeldis þekkja vel. Skömm er flókin tilfinning sem tengist sársaukafullum og truflandi tilfinningum um sekt, vangetu eða blygðun. Ef skömm er í jafnvægi getur hún hjálpað okkur að mynda tengsl við aðra þar sem hún gætir þess að við berum virðingu fyrir öðrum. Ef hún hins vegar fer úr böndunum getur hún brotið sjálfsmynd okkar niður og við upplifum okkur einskis virði. Skömm getur komið fram í bræðiköstum, félagsfælni og þunglyndi og jafnvel leitt til ofbeldis og mikillar vanlíðunar.

Skömm er í rauninni samheiti yfir allar þær tilfinningar sem kvikna í okkur þegar við upplifum einhvers konar minnkun. Skömm er ein algengasta tilfinningin sem brotaþolar kynferðisofbeldis upplifa. Það er tilkomið þar sem við tökum á okkur ábyrgðina á því að ofbeldið hafi átt sér stað jafnvel þó við vitum að það sé ekki rökrétt. Sá sem beitir ofbeldi er eini aðilinn sem getur borið ábyrgð. Það er ekkert sem þú getur gert sem veldur því að þú eigir skilið að upplifa ofbeldi.

Lykilorð

  • Sekt
  • Vangeta
  • Blygðun
  • Bræðisköst
  • Félagsfælni
  • Þunglyndi
  • Minnkun
  • Brotin sjálfsmynd